Við eigum nýja stjórnarskrá!

Við eigum nýja stjórnarskrá!

Af hverju nýju stjórnarskrána?

Alþingi boðaði til þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá. Yfir 2/3 hlutar kjósenda (66,9%) samþykktu í atkvæðagreiðslunni að tillögur sem fyrir þá voru lagðar skyldu verða grundvöllur nýrrar stjórnarskrár Íslands. Tillögurnar eru í daglegu tali kallaðar nýja stjórnarskráin. Við eigum nýja stjórnarskrá.

Í heilbrigðu lýðræðisríki er þetta fullnægjandi svar við spurningunni: Af hverju nýju stjórnarskrána. Landsmenn sömdu sér nýja stjórnarskrá og samþykktu hana í þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október 2012.

Persónukjör

Í þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá 2012 lýstu 78% kjósenda stuðningi við persónukjör.

Nýja stjórnarskráin gerir ráð fyrir að kjósandi geti, ef hann vill, deilt atkvæði sínu og valið frambjóðendur af fleiri en einum framboðslista; kosið þvert á flokka. Alþingi er samt sem áður falið að ákveða hve langt á að ganga í persónukjöri. Það getur ákveðið að kjósandi fái aðeins að setja X við einn framboðslista, einn flokk, eins og verið hefur. Samkvæmt nýju stjórnarskránni er hins vegar ekki hægt að ganga skemmra en svo að kjósandinn fái þá sjálfur að raða frambjóðendum þess lista sem hann kýs, ef hann vill. Það er lágmarkið.

Gegnsæi

Gegnsæi er leiðarstef í nýju stjórnarskránni. Nærtækt er að vitna í ákvæði úr tilteknum greinum sem varða gegnsæi beint. Samt þarf að hafa í huga að önnur leiðarstef nýju stjórnarskrárinnar, aukin valddreifing og skýrari ábyrgð, stuðla einnig að gegnsæi.

Þjóðaratkvæðagreiðslur

Í þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá 2012 lýstu 73,3% kjósenda stuðningi við þjóðaratkvæðagreiðslur að frumkvæði kjósenda.

Af hverju hafa Íslendingar búið í áratugi við auðlindanýtingu í sjávarútvegi sem yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar er andvígur? Eða kosningakerfi? – Þjóðaratkvæðagreiðslur að frumkvæði kjósenda þekkjast víða um lönd. Þótt slíkar atkvæðagreiðslur fái aukið vægi er ekki sjálfgefið að allaf sé verið að gera út um mál með þeim hætti. Einn helsti kosturinn við þjóðaratkvæðagreiðslur, sem almenningur getur knúið fram, er fælingarmátturinn. Stjórnvöld eru líklegri til þess hafa almannahagsmuni að leiðarljósi og ganga fram af hófsemi ef þau vita að almenningur getur skorist í leikinn.

Alvöru náttúruvernd

Gildandi stjórnarskrá er ekki með náttúruverndarákvæði á meðan nýja stjórnarskráin er með gífurlega öfluga náttúruruvernd sem að Landvernd, stærstu náttúruverndarsamtök Íslands, styðja. Hún tryggir líka málsaðild almennings sem er lykilatriði þess að náttúruvernd sé tryggð að mati Landverndar. Því án aðkomu almennings að opinberri ákvörðunartöku verða áhrif hagsmunaaðila yfirgnæfandi þar sem fókusinn verður á skammtímagróða hagsmunaaðila. Jafnframt tryggir nýja stjórnarskráin að fólk og fyrirtæki komist ekki upp með að spilla náttúrunni án þess að tjónið sé bætt.

Að auki segir nýja stjórnarskráin að nýtingu náttúrugæða skuli hagað þannig að þau skerðist sem minnst til langframa og réttur náttúrunnar og komandi kynslóða sé virtur. Þannig felur hún í sér öflugan lagalegan grundvöll í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.

Auðlindir þjóðarinnar

Í þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá 2012 lýstu 83% kjósenda stuðningi við að náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeigu yrðu lýstar þjóðareign.

Nýja stjórnarskráin (34. gr.) tryggir eignarhald þjóðarinnar á öllum sameiginlegum auðlindum landsins um aldur og ævi. Ekki aðeins fiskveiðiauðlindinni. Séð er til þess að arðurinn af sameiginlegum auðlindum renni í sjóði almennings en ekki í vasa örfárra. Nýja stjórnarskráin kveður á um að sameiginlegar auðlindir landsmanna skuli aldrei seldar né leigðar til afnota á undirverði og að jafnræði og sjálfbærni ráði för við nýtingu þeirra.

Dýravernd

„Með lögum skal kveðið á um vernd dýra gegn illri meðferð og dýrategunda í útrýmingarhættu“. – Svo segir í nýju stjórnarskránni (36. gr.)

Í núgildandi stjórnarskrá eru dýrin okkar hvergi nefnd. Ákvæði um vernd dýra er hins vegar að finna í stjórnarskrám sumra annarra ríkja, svo sem Þýskalands. Þá eru kröfur uppi í ýmsum ríkjum um að vernd dýra verði tryggð í stjórnarskrá. Þegar eru í gildi dýraverndunarlög og greininni um vernd dýra í nýju stjórnarskránni er fyrst og fremst ætlað að hafa þau réttaráhrif að árétta lögin og styrkja þau. 

Jafnt vægi atkvæða

Í þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá 2012 lýstu 66,5% kjósenda stuðningi við jafnt vægi atkvæða alls staðar af að landinu.

Í nýju stjórnarskránni segir í 39. grein Alþingiskosningar: „Atkvæði kjósenda alls staðar á landinu vega jafnt.“ Öðruvísi getur það ekki verið í nútímalegri stjórnarskrá. Einn maður eitt atkvæði er ein af grunnstoðum lýðræðislegs skipulags og jafnréttis borgaranna.

Aukin vernd gegn ofbeldi

Nýja stjórnarskráin felur í sér nýtt ákvæði um að mannhelgi sé tryggt og um vernd gegn hvers kyns ofbeldi, þ.m.t. kynferðisofbeldi. Ísland hefur undirgengist sáttmála og samninga Sameinuðu þjóðanna til að uppræta kynbundið ofbeldi. Þrátt fyrir það hefur íslenskum stjórnvöldum verið legið á hálsi fyrir að taka ekki nógu hart á kynbundnu ofbeldi sem er samfélagsmein hér sem og í öðrum löndum. Nýja ákvæðið er árétting á mikilvægi jafnræðisreglunnar á sviði kynjajafnréttis og leggur enn afdráttarlausari skyldur á ríkið til að grípa til sérstakra aðgerða á þessu sviði.

Réttur til heilbrigðisþjónustu

Heilbrigðisréttarákvæði nýju stjórnarskrárinnar hefur þau megináhrif að heilbrigðiskerfið í heild sinni verður sett meira í forgang í samfélaginu okkar vegna afdráttarlausara og ítarlegra orðalags í ákvæðinu.

Má segja að ákvæði nýju stjórnarskrárinnar um rétt til heilsu hafi þrenns konar tilgang.

Í fyrsta lagi hafa þau það hlutverk að ramma inn réttindi í stjórnarskrá sem nú þegar eru til staðar. Þannig getur fólk áttað sig betur á því hvaða réttindi það hefur í raun enda eiga stjórnarskrár að vera skýrar og fjalla um stjórnskipun landsins og mannréttindi fólksins.

Í öðru lagi verður rétti til heilbrigðisþjónustu og heilsu gerður hærra undir höfði með því að ramma hann inn og orða með skýrum hætti í æðstu lögum landsins. Rétturinn til heilsu og fullnægjandi, viðeigandi og aðgengilegrar heilbrigðisþjónustu verður sterkari sem þýðir að það megi ekki skerða þennan rétt í stundarbrjálaði pólitíkurinnar.

Í þriðja lagi þá segir að það skuli meta líkamlega heilsu til jafns á við andlega heilsu. Vitundarvakning á síðastliðnum áratugum um það að tengslin á milli líkamlegrar og andlegrar heilsu séu órjúfanleg sýnir nauðsyn þess að nálgast málefni sem tengjast heilsunni á heildstæðan hátt. Með því að hafa ákvæði í stjórnarskránni sem tekur af allan vafa, að geðheilsa falli undir „rétt til heilsu“, neyðist ríkisstjórnin og Alþingi til að forgangsraða verkefnum og fé í málaflokkinn.

Algengum mótrökum svarað

Andstæðingar nýju stjórnarskrárinnar halda gjarnan fram ýmsum rökum til stuðnings þess að Alþingi beri ekki skylda til að lögfesta hana. Hér eru nokkur af þeim algengustu og stutt mótsvör við þeim:

  • Alþingi þarf ekki að fara eftir þjóðaratkvæðagreiðslunni frá 2012 því hún var bara ráðgefandi

    Það nær algild meginregla í lýðræðisríkjum að þjóðþing virða niðurstöður úr þeim atkvæðagreiðslum sem boðað er til. Sú skylda er siðferðileg og  pólitísk frekar en lögfræðileg, en jafn mikilvæg fyrir því. 

  • Þjóðaratkvæðagreiðslan um nýju stjórnarskrána árið 2012 var ógild

    Hún var ekki ógild. Hér er á ferðinni misskilningur þar sem ruglað er saman annars vegar gildri þjóðaratkvæðagreiðslu 2012 og hins vegar kosningu til stjórnlagaráðs 2011.

  • Nýja stjórnarskráin kollvarpar gildandi stjórnskipun landsins

    Það sem hún gerir er að færa texta stjórnarskrárinnar nær þeirri stjórnskipun sem gildir í raun auk þess sem hún felur í sér mikilvægar umbætur.

  • Öll dómafordæmi gildandi stjórnarskrár falla úr gildi við nýja stjórnarskrá

    Um það bil 80% af gömlu stjórnarskránni er í þeirri nýju. Margt yrði túlkað eins en mál sem snerta ný ákvæði þyrftu dómstólar að sjálfsögðu túlka út frá hinni lagalegu aðferð, rétt eins og öll ný lög sem sett eru í landinu.

  • Við þurfum ekki nýja stjórnarskrá því að „hrunið var ekki stjórnarskránni að kenna“

    Þessi mýta er svokallaður “strámaður” því hún heldur fram sjónarmiðum sem enginn stendur fyrir. Með öðrum orðum heldur stuðningsfólk nýju stjórnarskrárinnar því alls ekki fram að hrunið hafi verið stjórnarskránni að kenna.  Það stóð hins vegar alltaf til að skrifa Íslandi nýja stjórnarskrá frá lýðveldisstofnun. Hrunið var bara kornið sem fyllti mælinn og kom þannig af stað lýðræðislegasta stjórnarskrárferli sem heimsbyggðin hefur séð.

  • Það er óþarfi að breyta stjórnarskránni til að breyta kvótakerfinu

    Vissulega er fræðilega hægt að setja lög á Alþingi sem veita þjóðinni arðinn af auðlindum sínum. Hins vegar hefur þegar verið fullreynt að Alþingi mun ekki standa með þeim sterka meirihluta þjóðarinnar sem vill að auðlindir, sem ekki eru í einkaeign, verði lýstar sem þjóðareign í stjórnarskrá. Til þess eru hagsmunaöflin sem vilja óbreytt ástand einfaldlega of sterk. 

Hvernig varð nýja stjórnaskráin til?

Við krefjumst
aðgerða strax!

Við krefjumst þess að Alþingi virði niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar 20. október 2012 og lögfesti nýju stjórnarskrána. Í kosningunni samþykktu yfir 2/3 hlutar kjósenda að tillögurnar sem kosið var um skyldu verða grundvöllur nýrrar stjórnarskrár. Tillögurnar eru heildstæður samfélagssáttmáli, það er ekki Alþingis að velja og hafna ákvæðum úr sáttmálanum. Þjóðin er stjórnarskrárgjafinn og setur valdhöfum mörk en ekki öfugt. Við ætlum ekki að bíða í heilan áratug eftir að nýja stjórnarskráin taki gildi og því krefjumst við aðgerða strax!

Nýja stjórnarskráin í hnotskurn